1
Reykir í Mosfellsbæ
Rannsóknarskýrsla
Kristinn Magnússon
Fornleifavernd
ríkisins
2012
2
Forsíðumyndir: Efri myndin er tekin í norðvestur yfir það svæði þar sem grafið var. Vatnstankurinn
sést í baksýn. Neðri myndin er tekin ofan af vatnstankinum til suðausturs yfir uppgraftarsvæðið.
3
EFNISYFIRLIT
INNGANGUR.......................................................................................................................... 5
ÚR SÖGU KIRKJUNNAR Á REYKJUM............................................................................... 6
RANNSÓKN............................................................................................................................ 6
NIÐURSTAÐA....................................................................................................................... 11
HEIMILDASKRÁ.................................................................................................................. 12
4
Mynd 1. Rauði punkturinn vísar á landssvæðið þar sem rannsóknin var gerð. (Loftmynd frá Landmælingum
Íslands).
Mynd 2. Sjá staðsetningu Reykja (Suðurreykja) í gula rammanum. (Kort frá Landmælingum Íslands).
5
INNGANGUR
Heimildir herma að kirkja hafi staðið á Reykjum á 12. öld. Kirkjan var lögð af um miðja 18.
öld. Ekki er vitað með vissu hvar kirkjan stóð.
Skipuleg skráning fornleifa í Mosfellsbæ
hófst árið 1980 á vegum Þjóðminjasafns Íslands og var það fyrsta skráning sinnar tegundar á
Íslandi. Guðmundur Ólafsson fornleifafræðingur var meðal þeirra sem söfnuðu heimildum og
skráðu fornleifar í sveitarfélaginu. Guðmundur talaði m.a. við Jón M. Guðmundsson bónda á
Reykjum og Ingveldi Árnadóttur á Efra-Hvoli.
1
Jón M. Guðmundsson
fæddist í Reykjavík
19. september 1920. Hann flutti með foreldrum sínum að Suður-Reykjum í Mosfellssveit
1926. Jón var bóndi á Reykjum í Mosfellssveit 1947-2000 og frumkvöðull í alifuglarækt.
Jón lést 22. apríl 2009
2
. Jón taldi að kirkjan hafi staðið sunnan og austan við núverandi
íbúðarhús á Reykjum. Ingveldur Árnadóttir var fædd að Miðdalskoti í Laugardal þann 11.
febrúar 1901. Árið 1935 stofnaði hún ásamt manni sínum, Vígmundi Pálssyni, nýbýlið Efra-
Hvol í Mosfellssveit. Ingveldur lést 20. október 1987.
3
Guðmundur Ólafsson ræddi við
Ingveldi 20. júní 1980. Sagðist hún þá telja að g
rafreitur og kirkja á Reykjum hafi verið
austur og uppi á hól frá íbúðarhúsinu á Reykjum.
4
Magnús Guðmundsson, tengdasonur Jóns M. Guðmundssonar á Reykjum, hefur skráð örnefni
í landareigninni. Í örnefnaskránni er fjallað um kirkjuna á Reykjum og hugsanlega
staðsetningu hennar. Þar segir að þegar Jón M. Guðmundsson undirbjó staðsetningu nýs
íbúðarhúss að Reykjum um 1960 hafi svæðið suðaustur af eldra íbúðarhúsi verið kannað.
Reknar voru niður járnstangir til að kanna jarðveginn. Komið var niður á eitthvað hart og
talið að það væri klöpp. Þegar farið var að grafa með stórvirkum vélum kom í lós að þarna
voru hellur og hleðslur um 100 – 120 cm undir yfirborði. Telja sumir að þarna hafi kirkjan
staðið. Í örnefnalýsingunni kemur jafnframt fram að kirkjugarðurinn sé talinn hafa verið
suðaustur af núverandi íbúðarhúsi en að ekki hafi fundist þar mannabein svo öruggt sé.
Meðal heimildamanna Magnúsar Guðmundssonar voru bræður Jóns þeir Andrés og Þórður
Guðmundssynir. Sögðu þeir frá því að þeir hafi oft leikið sér í laut sem kölluð var Litlu-
Reykir og var u.þ.b. þar sem stofugrunnur núverandi íbúðarhúss á Reykjum stendur. Eitt sinn
hugðust þeir bræður grafa niður til Ástralíu á þessum stað en komu þá niður á bein. Þeir voru
strax látnir hætta að grafa og sagt að þetta væru mannabein. Leifar af tréverki fundust líka á
staðnum og gæti það bent til að þar hafi verið kirkjugarður. Magnús ræddi einnig við Oddnýu
Helgadóttur á Ökrum. Hún hafði eftir Mörtu á Undralandi að Marta sagðist hafa munað eftir
rústum af kirkju og rétt fyrir austan og sunnan núverandi íbúðarhús á Reykjum.
5
Jón Magnús Jónsson bústjóri á Reykjum og sonur Jóns M. Guðmundssonar hefur velt fyrir sér
hvar kirkjan og kirkjugarðurinn gætu hafa verið. Hóllinn austan við bæjarhúsin á Reykjum
virðist ákjósanlegur staður fyrir kirkju og kirkjugarð. Í samstarfi við Jón Magnús ákvað
1
Guðmundur Ólafsson o.fl. Skráning fornleifa í Mosfellsbæ. Þjóðminjasafn Íslands 2006. Bls. 170.
2
Morgunblaðið. 97. árg. 122. tölublað, 2009. Bls. 29
3
Jón M. Guðmundsson. Morgunblaðið. 75. árg. 247. tölublað, 1987. Bls. 52
4
Guðmundur Ólafsson o.fl. Skráning fornleifa í Mosfellsbæ. Þjóðminjasafn Íslands 2006. Bls. 170.
5
Magnús Guðmundsson. Suður-Reykir. Örnefni á Suður-Reykjum í Mosfellsbæ. Örnefnastofnun Íslands 1991.
Bls. 2-3.
6
Fornleifavernd ríkisins að grafa könnunarskurð á hólnum til að athuga hvort þar kynnu að
leynast leifar eftir kirkjugarðinn.
ÚR SÖGU KIRKJUNNAR Á REYKJUM
Elsta heimild um kirkju á Suður-Reykjum er máldagi Þorláks Þórhallssonar (1133 – 1193).
Máldaginn er skáður árið 1180.
Í máldaganum segir m.a. að messað skuli annan hvern
löghelgan dag í kirkjunni á Reykjum. Fjórða hvern dag skuli syngja morgunsöng og messað
skuli á hátíðum. Greiða skuli prest sem svarar hundrað álnum af vaðmáli þar af helminginn í
mjöli ef ábúandi kýs það heldur. Tekjur kirkjunnar voru tíund heimamanna og ljósatollar.
Samkvæmt máldaganum átti kirkjan fjögur altarisklæði, þrjár bjöllur, tvo kertastjaka, tvær
mundlaugar, tvo dúka, þrjá bikara og eina kú. En nyt hennar skyldi gefa á Maríumessu til að
fæða þurfamenn.
6
Til eru máldagar Reykjakirkju frá árunum 1367 og 1379. Kirkjunnar er einnig getið í máldaga
Vilkins biskups frá árinu 1397. Í Vilkinsmáldaga kemur m.a. fram að Þorlákskirkja að Reykjum
átti jörðina Úlfarsfell. Meðal annarra eigna voru þrjár kýr, róðukross, Þorlákslíkneski,
altarisklæði, mundlaug, tvær bjöllur og paxspjald.
7
Reykjakirkju er enn getið í máldaga Gísla biskups Jónssonar frá 1575. Auk jarðeigna átti
kirkjan þá m.a. messuklæði, altarisklæði og tvær litlar klukkur.
8
Í júní árið 1704 ritaði Páll Jónsson Vídalín lögmaður jarðabók fyrir Mosfellssveit í viðurvist
og eftir tilsögn almúgans.
9
Þar segir að Suður-Reykir séu kirkjujörð og að þar sé „heimamanna
gröftur og embættað þá fólk er til altaris“.
10
Um jörðina Úlfarsfell er sagt að jörðin sé
„kirkjueign bóndajarðar Suðurreykja“.
11
Séra Stefán Þorvaldsson prestur á Mosfelli segir í Lýsingu Mosfells- og Gufunessóknar frá 1855:
„Mælt er, að bænhús hafi áður verið til forna á Suður-Reykjum“.
12
Kirkjan að Reykjum var ein af þeim sem lögð var niður með konungsbréfi 17. maí 1765.
13
RANNSÓKN
Í örnefnaskrá Suður-Reykja segir: „
Næst suðaustan við bæjarhúsin er Upptúnið (23). Liggur
það í kringum og ofan við litla hæð, en efst á henni er kaldavatnsgeymir og lítill kofi úr
múrsteinum, hvort tveggja reist af setuliðinu í síðari heimsstyrjöldinni.“
14
Múrsteinskofinn er
6
Fornbréfasafn. Diplomatarium Islandicum I, bls. 268.
7
Fornbréfasafn. Diplomatarium Islandicum IV, bls. 112-113.
8
Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson. Mosfellsbær. Saga byggðar í 1100 ár, 2005, bls. 43.
9
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III. Gullbringu- og Kjósarsýsla, 1982, bls. 287.
10
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III. Gullbringu- og Kjósarsýsla, 1982, bls. 311.
11
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III. Gullbringu- og Kjósarsýsla, 1982, bls. 310.
12
Stefán Þorvaldsson: Lýsing Mosfells- og Gufunessóknar 1855. Landnám Ingólfs. III, 1937-1939, bls. 238.
13
Oddgeir Stephensen og Jón Sigurðsson. Lovsamling for Island. Tredie bind. 1749-1772. 1854, bls. 525.
14
Magnús Guðmundsson. Suður-Reykir. Örnefni á Suður-Reykjum í Mosfellsbæ. Örnefnastofnun Íslands 1991.
Bls. 5.
7
nú horfinn en kaldavatnsgeymirinn stendur enn efst á hólnum. Geymirinn er steinsteyptur og
mikið mannvirki. Geymirinn er ferhyrndur, um 10 x 10 m, og mun vera um 2 m hár. Hann er
að mestu niðurgrafinn en efsti hluti hans stendur þó upp úr. Stór hola hefur verið grafin þar
sem vatnsgeymirinn var byggður og að byggingunni lokinni hefur jarðvegi verið ýtt upp að
geyminum. Töluvert jarðrask hefur því verið samfara byggingu geymisins og hefur það
raskað minjum sem þarna voru.
Mynd 3. Mynd af Reykjabænum. Horft til vesturs. Hleðsluna á hólnum ber við hlöðuna og íbúðarhúsið.
(Mynd úr safni Hitaveitu Reykjavíkur).
Til er ljósmynd sem tekin var austan við bæjarhúsin á Reykjum og sýnir hún það sem fyrir
augu bar í vesturátt. Á myndinni má sjá bæjarhúsin á Reykjum, sem nú er búið að rífa, og
hlöðu, sem enn stendur. Hlaðan var byggð um 1930 svo að myndin hefur verið tekin eftir
þann tíma. Á myndinni sést vel garður sem staðið hefur á hólnum austan við húsin. Engin
hús né sýnilegar rústir eru inni í garðinum. Bygging vatnstanksins á stríðsárunum hefur
raskað þessum garði að hluta og húsarústum innan hans hafi þær verið til staðar. Í landslaginu
sér nú móta fyrir garði austan og sunnan við vatnstankinn. Þetta sést einnig á loftmynd af
svæðinu, sjá mynd 4. Yfirborð garðsins þar sem hann er sýnilegur er mjög ójafnt austan og
þó aðallega sunnan við vatnstankinn. Stendur víða grjót upp úr garðinum þó hann sé að mestu
yfirgróinn. Varð það metið svo að líklegt væri að um gæti verið að ræða lausagrjót frá
jarðraski og því minni líkur á að finna óraskaðar leifar garðsins á þessum stöðum. Yfirborðið
yfir suðausturhorni garðsins er öðruvísi. Þar er yfirborð hans slétt, ávöl grasivaxin bunga.
Taldar voru mestar líkur á að þarna væri garðurinn heillegastur og því ákveðið að grafa í hann
á þessum stað.
8
Mynd 4. Örin vísar á staðinn þar sem grafið var.
Rannsóknin fór fram dagana 12. til 15. júní 2012. Ákveðið var að grafa 3 m langan skurð
með stefnu því sem næst þvert á garðinn. Þegar komið var niður á um 25 cm dýpi höfðu
nokkrir stórir steinar komið í ljós nyrst í skurðinum. Skurðurinn var lengdur um 1 m í þann
enda til að betri mynd fengist af þessu grjóti. Í ljós komu fleiri steinar og var þetta yfirborð, á
25 cm dýpi teiknað, sjá mynd 5. Á þessu dýpi í norðurenda skurðarins var komið niður á þétt
torfkennt lag. Í miðjum skurði var blandaðra lag, með torfi og vott af móösku í. Þar birtust
einnig linsur af finni svartri ösku sem telja verður líklegt að sé úr Kötlugosi frá því um 1500.
Syðst í skurðinum var brún einsleit mold á þessu dýpi. Grafið var niður á 40 cm dýpi. Í ljós
komu fleiri steinar í norðuenda skurðarins. Voru þeir teiknaðir inn á flatarteikninguna (mynd
5) og merktir með C. Steinar sem komið höfðu í ljós á 25 cm dýpi en náðu niður á 40 cm
dýpi eru merktir með A á teikningunni. Steinar sem merktir eru með B á teikningunni eru
steinar sem komu í ljós á 25 cm dýpi en búið var að fjarlægja á 40 cm dýpi. Um miðjan skurð
var jarðvegur líkt og áður blandaður, en þó svolítið lausari í sér en ofar, moldarkenndur
blandaður móösku og gjósku. Enn var þétt torfkennt lag í norðurhluta skurðarins. Áfram var
grafið niður á um 70 til 80 cm dýpi. Þar kom í ljós moldarblandið malarlag án allra ummerkja
um mannvist. Ekki var talin ástæða til að grafa dýpra. Steinarnir í norðurenda skurðarins
voru fjarlægðir. Komu þá í ljós fleiri steinar undir þeim sem ofar lágu. Þeir voru ekki
fjarlægðir en teiknaðir inn á flatarteikningu, sjá mynd 6.
9
Mynd 5. Flatarteikning á 25 – 40 cm dýpi.
Steinar sem merktir eru með A á mynd 5 komu í ljós á 25 cm dýpi og náðu niður á 40
cm dýpi.
Steinar sem merktir eru með B á mynd 5 komu í ljós á 25 cm dýpi en höfðu verið
fjarlægðir á 40 cm dýpi
Steinar sem merktir eru með C á mynd 5 komu í ljós á 40 cm dýpi.
Mynd 6. Flatarteikning á 60 cm dýpi. Sjá útskýringar í texta.
Steinar sem merktir eru með D á mynd 6 eru steinar sem ýmist sáust á 40 cm dýpi eða
komu í ljós strax þar undir.
Steinar sem merktir eru með E á mynd 6 komu í ljós á um 60 cm dýpi.
Við athugun á langsniðum skurðarins kom í ljós að torflögin í norðurenda skurðarins voru
hluti af torfvegg sem rannsóknarskurðurinn gekk í gegnum. Grjótið sem þar fannst lá í eða
10
ofan á torfveggnum. Mikið var af grjóti í þessum enda skurðarins og virtist það liggja í sömu
stefnu og torfveggurinn. Ekki var þó um mjög samfærandi steinhleðslu að ræða. Mold var á
milli steinanna og staðsetning þeirra ekki eins og þeim hafi verið haganlega komið fyrir í
veggjarhleðslu. Af ljósmyndinni frá því upp úr 1930 er ekki hægt að greina hvort garðurinn
sem þar sést hafi verið grjóthlaðinn eða eingöngu úr torfi. Allavega er svo að sjá sem
garðurinn sé gróinn þegar myndin var tekin. Telja verður þó líklegt að grjót hafi verið í
garðinum, jafnvel bæði torf og grjót. Garðinum hefur verið mikið raskað þegar
vatnstankurinn var byggður. Sennilegast er að leifum þess garðs sem þá voru á hólnum hafi
verið raskað að verulegu leyti, hleðslum ýtt til og jarðvegi mokað yfir. Steinarnir sem fundust
í skurðinum eru sennilega leifar af þessum garði sem þá hefur verið reistur á leifum eldri
torfhlaðins garðs og grafin niður í hann að hluta. Hvort báðir garðarnir hafa verið jafn stórir
um sig og hvort veggir þeirra hafa haft nákvæmlega sömu stefnu er ekkert hægt að fullyrða
um út frá þessari rannsókn.
Ákveðið var að grafa holu, 1 x 1 m, 2 m frá norðurenda könnunarskurðarins nær
vatnstankinum. Holunni var valin staður miðað við umfang torfveggjarins þannig að hún lenti
innan garðs. Ef torfveggurinn var utan um kirkjugarð mátti telja víst að komið yrði niður á
mannabein eða önnur ummerki um jarðsetningu í rannsóknarholunni. Ekkert slíkt kom þó í
ljós. Engin ummerki torfveggjarins sáust í holunni og því greinilegt að hún var staðsett innan
við vegginn. Í holunni voru lagskipt moldarlög, sjá snið á mynd 7, en engin merki þess að
hún væri grafin innan kirkjugarðs.
Mynd 7. Snið í holu innan veggjar.
Bæði langsnið könnunarskurðarins voru teiknuð, sjá mynd 8 og mynd 9. Í sniðunum sést vel
umfang torfveggjarins en ystu mörk hans má einnig sjá á flatarteikningu, mynd 6, dregin með
11
punktalínu. Það er athyglisvert að gjóska fannst einungis utan við torfvegginn en ekki í
honum. Séu svörtu gjóskuflekkirnir úr Kötlugosinu frá því um 1500 bendir þetta til að
torfveggurinn sé frá því fyrir árið 1500.
Mynd 8. Langsnið. Vestanvert í könnunarskurði.
Mynd 9. Langsnið. Austanvert í könnunarskurði.
NIÐURSTAÐA
Þegar vatnstankurinn var grafinn niður hefur verið mikið jarðrask á svæðinu. Engar sagnir
eru um að komið hafi verið niður á rústir kirkju né að mannabein hafi komið í ljós við
framkvæmdina. Telja verður líklegt að ef vatnstankurinn hefur verið grafinn niður í
12
kirkjugarð hafi fjöldi mannabeina fundist á staðnum og að það hafi vakið svo mikla athygli að
frásagnir af því hefðu varðveist.
Það er mjög sérstakt að skýr garðhleðsla skuli ekki koma í ljós í efri lögum
könnunarskurðarins miðað við hvað hann er greinilegur á myndinni frá eftir 1930. Skýringin
hlýtur að vera sú að nær allar leifar garðsins hafi verið útmáðar við jarðraskið sem fram fór
þegar vatnstankurinn var byggður.
Heimildir segja að kirkja og kirkjugarður hafi verið á Reykjum í um 600 ár. Hafi
kirkjugarðurinn staðið á hólnum sem rannsakaður var er nær útilokað að hægt hafi verið að
grafa 1 fermetra holu innan hans án þess að rekast á ummerki greftrunar. Hver einasti
fermetri garðsins hlýtur að hafa verið nýttur til greftrunar á öllum þessum árum.
Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að auk garðsins sem sést á ljósmynd frá því upp úr 1930
hafi áður staðið torfhlaðinn veggur á hólnum en ólíklegt er að það hafi verið
kirkjugarðsveggur. Kirkjan og kirkjugarðurinn hafa því að öllum líkindum staðið annars
staðar í landi Reykja en á þessum hól.
HEIMILDASKRÁ
Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson. Mosfellsbær. Saga byggðar í 1100 ár. Pjaxi ehf
2005.
Íslenzkt fornbréfasafn. Fyrsta bindi 834-1264. Hið íslenzka bókmenntafélag.
Kaupmannahöfn 1857-76.
Íslenzkt fornbréfasafn. Fjórða bindi 1265-1449. Hið íslenzka bókmenntafélag.
Kaupmannahöfn 1897.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Gullbringu- og Kjósarsýsla. Þriðja bindi.
Reykjavík 1982.
Jón M. Guðmundsson. Morgunblaðið. 75. árg. 247. tölublað, 31. október 1987.
Lovsamling for Island. Oddgeir Stephensen og Jón Sigurðsson. Tredie bind. 1749-1772.
Kaupmannahöfn 1854.
Magnús Guðmundsson. Suður-Reykir. Örnefni á Suður-Reykjum í Mosfellsbæ.
Örnefnastofnun Íslands 1991.
Morgunblaðið. 97. árg. 122. tölublað, 7. maí 2009.
Oddgeir Stephensen og Jón Sigurðsson. Lovsamling for Island. Tredie bind. 1749-1772.
1854
Skráning fornleifa í Mosfellsbæ. Agnes Stefánsdóttir, Rúna K. Tetzschner, Guðmundur
Ólafsson, Ágúst Georgsson, Kristinn Magnússon og Bjarni F. Einarsson. Þjóðminjasafn
Íslands 2006 (2006/2).
Stefán Þorvaldsson: Lýsing Mosfells- og Gufunessóknar 1855. Sýslulýsingar og
sóknarlýsingar. Landnám Ingólfs, safn til sögu þess III. Félagið Ingólfur gaf út. Reykjavík
1937-1939.
Dostları ilə paylaş: |