Aðalfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi 25. aðalfundur föstudaginn maí 2016 haldinn að Reykjum í Ölfusi kl. 15. 00



Yüklə 26,08 Kb.
tarix21.01.2017
ölçüsü26,08 Kb.
#6085
Aðalfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi

25. aðalfundur föstudaginn 6. maí 2016 haldinn að Reykjum í Ölfusi kl. 15.00

Aðalfundur Félags skógareigenda á Suðurlandi hófst kl. 15.00 að loknu miðdegiskaffi í húsnæði Garðyrkjuskólans að Reykjum (LbhÍ) .

María E. Ingvadóttir formaður setti aðalfundinn. Hún stakk upp á Agnesi Geirdal sem fundarstjóra og Sigríði Hjartar ritara, sem var samþykkt.


  1. Skýrsla formanns var svohljóðandi:

Ágætu félagar, velkomnir til fundar. Ég vil bjóða sérstaklega velkominn nýjan skógræktarstjóra, Þröst Eysteinsson.

Starfsárið hófst með Jónsmessugöngu, þar sem að þessu sinni var gengið um Skógarhlíð, myndarlega skógræktarjörð þeirra Hannesar Lentz og Guðrúnar Margrétar Pálsdóttur. Glatt var á hjalla eftir gönguna og veitinga notið í góðra vina hópi.

Í apríl var félagsfundur haldinn í Gunnarsholti, þar sem skoðað var asparklónasafn Landgræðslunnar, undir leiðsögn Sveins Runólfssonar landgræðslustjóra, sem var að láta af störfum. Sveinn flutti nokkur kveðjuorð og var honum þakkað gott samstarf og velvilji í garð félagsins. Á fundinum hélt Björn B. Jónsson gott og fróðlegt erindi um plöntuframleiðslu fyrir Suðurlandsskóga og mikilvægi samstarfs við framleiðendur, varðandi gæði og klóna. Einnig kynnti hann úttekt á gæðum gróðursetningar í umdæmi Suðurlandsskóga á árinu 2015. Fundargerðir eru inni á síðu skógarbænda, skogarbondi.is
Endurskipulagning og sameining stofnana, verkefna og félaga innan skógargeirans hefur verið aðal umræðuefni síðasta starfsárs. Nýr skógræktarstjóri, Þröstur Eysteinsson, var skipaður í lok síðasta árs, en Þröstur verður yfir nýrri skógræktarstofnun sem mun taka til starfa um mitt þetta ár og hefur fengið nafnið Skógræktin. Er honum óskað til hamingju með nýja starfið og velfarnaðar við að móta öflugt skógræktarstarf í landinu og leiða bakhjarl atvinnugreinarinnar skógrækt, en komandi misseri gæti orðið vendipunktur í skipulagi við úrvinnslu skógarafurða.

Starfshópur á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins hefur unnið að spilagi nýrrar skógræktarstofnunar. Boðað var til funda, þar sem fólk úr skógargeiranum var kallað til og þeirra hugmyndir og skoðanir lagðar í málefnapakkann og vonandi notaðar í málefnavinnuna. Björn B. Jónsson er í þessum vinnuhópi. Þetta frumvarp hefur verið lagt fram og er komið í nefnd. Hér á eftir mun Þröstur fræða okkur um frumvarpið, innihald þess og tilgang og framtíðarsýn nýrrar stofnunar.

Ný náttúruverndarlög tóku gildi á síðasta ári og sýnist sitt hverjum, en ljóst er að standa þarf vörð um eignarrétt og ráðstöfunarrétt fólks yfir eigum sínum. Félag landeigenda hefur staðið í ströngu varðandi þjóðlendumálin og hvet ég ykkur til að fylgjast með þeirra ágæta starfi á síðunni www.landeigandi.is
Kolefnismálin voru nokkuð til umræðu á árinu og reynt að þoka þeirri umræðu áleiðis að kolefnisbinding er eign þess sem á það landsvæði þar sem binding fer fram, alveg eins og losun er á ábyrgð þess sem losar kolefni og þarf að greiða fyrir þá losun. Nefna má einnig það merkilega starf sem unnið er með bændum að kolefnisjöfnun búa sinna.

Nokkuð hefur verið fundað og rætt um úrvinnslu skógarafurða. Á næstu vikum verður unnið að samantekt á tilgangi og markmiðum slíks rekstrarfélags. Með tilkomu nýja kurlarans, sem hefur verið gerður út frá Feng, er ljóst, að ekki verður lengur beðið með að hefja rekstur slíks félags. Eins og við höfum áður rætt, er mikilvægi þróunarstarfs mikið, söfnun upplýsinga um viðarmagn og grisjunarþörf og síðast en ekki síst, öflugt markaðsstarf fyrir allar hugsanlegar skógarnytjar. Vonandi gefst tími til að reifa stofnun rekstrarfélags um úrvinnslu skógarafurða hér á eftir. Það skiptir miklu máli að heyra skoðanir og hugmyndir félagsmanna varðandi þetta brýna verkefni.


Ég vil þakka meðstjórnendum mínum kærlega fyrir gott samstarf. Einnig Birni B. Jónssyni sem alltaf er til staðar og alltaf tilbúinn að miðla af sínum viskubrunni. Starfsfólki Suðurlandsskóga eru færðar þakkir fyrir gott samstarf, þeim Böðvari og dreifingarstjórunum Halli, Hörpu Dís og Valgerði.
Formanni var þökkuð greinargóð skýrsla.


  1. Reikningar.

Gjaldkeri, Hannes Lentz, las reikninga félagsins og gerði grein fyrir þeim.

Tekjur félagsins voru aðeins félagsgjöld, en alls greiddi 161 félagi árgjald, makar greiða ekki til félagsins. Rekstrargjöld voru fyrst og fremst greiðslur til LSE. Afgangur frá rekstri var liðlega 500 þúsund, en 155 þúsund árið áður.

Samkvæmt félagatali eru félagar 254, en makar sem ekki greiða árgjald nær 40, þannig að heldur færri höfðu greitt félagsgjald um áramót en árið áður.

Reikningar voru samþykktir með öllum greiddum atkvæðum.




  1. Kosningar.

Kjörtímabil formanns og aðalmanna í stjórn er þrjú ár en eitt ár fyrir varamenn í stjórn og skoðunarmenn reikninga og varamenn þeirra.

Að þessu sinni hafði Maria E. Ingvadóttir formaður lokið þriggja ára kjörtímabili. Hún gaf kost á sér til endurkjörs og var kosin með lófataki.

Sigríður Hjartar hafði gegnt þriggja ára tímabili í aðalstjórn, þar sem hún hefur gegnt starfi ritara. Hún gaf sömuleiðis kost á sér til endurkjörs og fékk ekki mótframboð.

Þær Bergljót Þorsteinsdóttir, Hellen Gunnarsdóttir og Hildur María Hilmarsdóttir voru allar endurkjörnar varamenn í stjórn til eins árs.

Skoðunarmenn reikninga, þeir Rafn Johnson og Ragnar Ingimarsson voru endurkjörnir til eins árs og sama gildir um varamenn þeirra, Sigurbjörgu Snorradóttur og Sigurð Jónsson.

Aðalstjórn er því þannig skipuð: formaður María E. Ingvadóttir, stjórnarmenn Hannes Lentz, Sigríður Heiðmundsdóttir, Sigríður Hjartar og Örn Karlsson. Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.




  1. Ákvörðun árgjalds.

Gjaldkeri greindi frá tillögu stjórnar um óbreytt árgjald með tilliti til stöðu félagsins, kr. 7.500.

Árgjaldið var samþykkt.


Önnur mál.
Björn B. Jónsson tók til máls eftir hefðbundin aðalfundarstörf og minnti félaga á verkefnið Sáð til skógar sem hófst síðastliðið vor. Á félagsfundi í maí 2015 fengu allmargir félagar poka með fræblöndu. Björn hafði aftur meðferðis allnokkra poka með blöndu af birkifræi, furu, sitkagreni og hvítgreni sem stóðu félögum til boða, ásamt leiðbeiningum og umfjöllun um verkefnið.

Björn vill að reyndar séu nýjar, ódýrar leiðir til skógræktar þar sem fjármagn er af mjög skornum skammti til skógræktar og hefðbundnar aðferðir við gróðursetningu ungplantna eru dýrar. Með sáningu væri unnt að ná árangri á stórum svæðum og byggja upp illa farið land. Fyrsta kynslóð trjágróðurs er oftast léleg en fer batnandi og með sáningu má fá skógarsvæði sem falla betur að landinu þar sem ekki yrði gróðursett í beinar raðir og eins yrði rótarkerfi skógarplantna mun betra þar sem þær yrðu ekki fyrir neinni röskun, en stafafura er sérlega viðkvæm fyrir rótarröskun.

Flestum trjátegundum sem notaðar eru í nytjaskógrækt má sá beint út í mörkina en fræöflun er mjög misjöfn milli ára og gæði fræja líka. Þekking okkar á beinni sáningu er mjög lítil og Björn hvatti fundarmenn til að taka þátt í tilrauninni með sáningu og skrá jafnframt sínar aðferðir við sáninguna. Vel þarf svo að fylgjast með sáningarreitum næstu árin en árangur ætti að vera vel sýnilegur innan 5 ára ef tilraunin heppnast.

Björn vitnaði til tilraunar Aðalsteins Sigurgeirssonar forstöðumanns Mógilsár, sem hefur sáð stafafurufræi á Hafnarsandi ( við Þorlákshöfn). Þar er árangur sáningarinnar orðinn mjög vel sýnilegur og sérlega góður. Aðalsteinn blandar dálítilli mold (úr furureit ?) saman við fræið og er það sjálfsagt til bóta.


Sigurður Jónsson í Ásgerði kvaddi sér hljóðs og bauð til skógargöngu í Ásgerði að kvöldi Jónsmessu, 24. júní. Hann sagði ýmislegt hafa gerst í ræktun í Ásgerði frá síðustu Jónsmessugöngu sem var árið 2007. Við yrðum sjálfsagt ekki svikin af móttökunum og þar vitnaði hann til pönnukökubaksturs Guðrúnar húsfreyju, sem er viðfrægur langt út fyrir landsteina.

María formaður þáði með þökkum fyrir hönd félagsins boð Sigurðar og Guðrúnar í Ásgerði.


Þröstur Eysteinsson, nýr skógræktarstjóri, tók því næst til máls og kvaðst fyrst og fremst vera kominn til að svara spurningum fundarmanna.

Hann vakti athygli fundarmanna á nýrri frétt á vefnum skogur.is þar er skýrt frá því að flatarmál ræktaðs skógar hefur náð 50 þúsund hekturum og flatarmál skóga á Íslandi er alls orðið um 200 þúsund hektarar, eða tæplega 2% af Íslandi. Þröstur kvaðst hafa sagst mundu deyja hamingjusamur, náum við 2% þrátt fyrir samdrátt síðustu ára.

Þröstur ræddi sameininguna innan skógargeirans og minnti á nefndina sem skipuð var síðastliðið ár og hafði að verkefni að sameina Skógrækt ríkisins og landshlutaverkefnin þannig að úr yrði ný stofnun, sem fengið hefur heitið Skógræktin og heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra eins og málin standa. Þessi nýja stofnun yfirtekur verkefni Skógræktar ríkisins og framfylgir lögum um landshlutaverkefnin, samningar okkar eru því við Skógræktina. Frumvarpið því að lútandi var lagt fram síðastliðinn miðvikudag, þetta er svokallaður bandormur, sem fjallar um þær lagabreytingar sem eru nauðsynlegar.

Stofnunin Skógræktin tekur við eignum – skuldbindingum - og öllum starfsmönnum.

Stjórnir landshlutaverkefnanna verða lagðar niður en komið verður á samráðsvettvangi við skógareigendur. Þröstur vill formlegt samstarf, í hverjum landshluta yrði nefnd sem hittist með formlegum hætti, formlegir tímasettir fundir – ákvörðunartaka – greiðslur – stefna – framlög.

Stærsta einstakt verkefni stofnunarinnar er að veita fjármunum til skógareigenda betur en hingað til.


Vinnuhópur um sameiningarmál er enn að störfum og Þröstur hvatti fundarmenn til að kynna sér fundargerðir hópsins á vefnum skogur.is

Mótun stefnu og skipurit verður fljótlega kynnt fyrir ráðherra. Hvernig unnt er að tryggja og efla skógræktarstarfið og efla framlög til skógræktar og skjólbeltaræktunar á lögbýlum, en örlítill áherslumunur er enn milli aðila.

Vonandi verða komnar niðurstöður um sameiningu þannig að unnt verði um næstu mánaðarmót að leggja fyrir umhverfisráðherra sameiningarplagg .

Vonast er til að sameiningin gangi formlega í gegn 1. júlí þótt nýja stofnunin verði svo sem ekki fullmótuð þá. Það þarf að bræða saman landshlutaverkefnin, þjóðskóga o.sfrv. Þetta er líka innbyrðis samræming gömlu landshlutaverkefnanna. Skógarbændur fái alls staðar sömu greiðslur fyrir sama starf.

Þröstur lagði áherslu á að útboð á plöntuframleiðslu verði samræmd og staðlar verði samræmdir og kvaðst vonast eftir að þjónusta, plöntugæði og fræðsla batni.

Þröstur sagðist hafa dálítið aðrar áherslur en forveri hans, Jón Loftsson skógræktarstjóri. Jón hefði sagt iðulega að nú væru bændur teknir við, þeir væru farnir að gróðursetja og vísaði þar með til Héraðsskóga og annarra landshlutaverkefna. Mönnum fannst þá að Skógrækt ríkisins ætti ekkert að gróðursetja.

Þröstur lagði áherslu á að Skógrækt ríkisins (ríkið) ætti mikil lönd, sem mætti nýta til skógræktar og minnti á Hekluskóga-verkefnið í því sambandi. Núna væri lag til að leggja almennt áherslu á aukna skógrækt, ekki bara nytjaskógrækt, vegna umræðunnar og áherslunnar á kolefnismál.

Hann velti upp spurningunni hvernig ríkið fengist til að borga meira. Væntingar frá skógareigendum væru miklar um betri þjónustu, meiri heimsóknir, meiri leiðbeiningar. Eins væru uppi óskir um aukna kynningu á netinu með séráherslu á íslenskar aðstæður, starfsmannamál og stjórnsýslumál. Alls væru uppi væntingar um 10-15 stöðugildi, en það kemur ekki á einni nóttu.

Ekki er vilji til að draga úr framlögum til nytjaskógræktar landeigenda.

Skógrækt sem lausn í loftslagsmálum verði lykilorðið.
Spurt var um kolefnisbindingu – getur nýja stofnunin tryggt okkur eignarhald á henni?

Þröstur kvað engan ramma vera til ennþá. Unnt væri að leigja eða selja kolefnisbindingu ef einhver viðskiptavinur finnst. Pólitískt umhverfi er stöðugt að breytast. Nauðsyn er á hvatakerfi en nýja stofnunin eigi ekki að leiða réttindamálin. Þröstur svaraði játandi spurningunni um hvort samtök skógarbænda gætu komið á kolefnismarkaði. Spurningin væri fyrst og fremst að finna kaupendur, sem væru þá fyrirtæki sem vilja fegra ásýnd sína. Stóriðjan og flugið eru inni í pakkanum með Evrópusambandinu. Losunarkvóti – nú hafa ríkin kvóta, sem getur gengið kaupum og sölu. Fjárhagslegt umhverfi er ekki komið enn.


Spurt var um afstöðu Þrastar til notkunar erlendra trjátegunda, sem hann kvað vera þá að nota ætti þær trjátegundir sem best duga á hverjum stað og uppfylla viðeigandi markmið.

Sjálfsáning trjáplantna af erlendum uppruna er raunveruleiki, þar má nefna viðju, alaskavíði, stafafuru og greni. Innan tíðar má búast við mikilli asparsáningu. Stutt sumur og haustfrost draga helst úr líkum á að sjálfsáning nái fótfestu og hann hefur ekki áhyggjur af útbreiðslu innfluttra trjátegunda.


Spurt var um fjárveitingar til skógræktar, sem voru allverulegar fyrir hrun og hvort og þá hvenær fjárveitingar ríkisins nái aftur þeim upphæðum. Þröstur sagði að verið væri að innleiða nýtt kerfi og það væri bylting ef þannig tækist til. Reyna á að búa til fjárlög næstu ára, Horfa skuli fram í tímann, segjum til næstu 5 ára, og landsáætlunar og landshlutaáætlunar næstu 5 árin, en ekki horfa til baka og miða við að halda aðeins i horfinu.
María Ingvadóttir kom með nokkrar spurningar til Þrastar svo sem um afstöðuna um að selja kolefnisbindingu.

Þröstur kvað ekkert í samþykktum landshlutasamb. sem bannar skógareigendum að selja sjálfir kolefnisbindingu.

Eins spurði hún hvað þýðir samráð? Við viljum koma beint að málum. Þröstur kvaðst vilja hafa hlutina formlega – samninga – ákvarðanir hjá ráðherra – fjárlög. Hvaða áherslur skipta skógarbændur mestu , ekki sýndarsamráð – skógarbændur verði með við ákvörðunartöku, ákveðnir flokkar ákvarðana verði ekki teknar nema í ákveðnu samráði við skógarbændur. Markmiðið er að ala skógarbændur upp í sjálfstæði.

Þá spurði hún hvort nýja stofnunin ætli að annast markaðsmál. Þröstur kvað hlutverk stofnunarinnar vera að þróa markaði – byggja upp innviði. Minnti á Elkem dæmið –þar hefði ríkisstofnun þurft að fjárfesta i kurlara – skipuleggja, en verktaki hafi átt skógarhöggsvél. Nú býðst skógarbændum að komast inn í Elkem dæmið.

Nú er Skógrækt ríkisins leiðandi í verkefnum – á að draga sig til baka.
Spurt var hvort skógarbændur geti lent í samkeppi við Skógræktina. Ekki kom beint svar við því.

Eins var spurt um kostnað við fellingu og greiðslur fyrir við úr skógi.

Þröstur sagði að eins og er séum við að selja kurl til Elkem sem borgar ákveðið verð fyrir rúmmetrann, sem er nú helmingi lægra verð en var í fyrra. Kostnaður við fellingu og flutning dregst frá þessari greiðslu og svo getur farið, vegna mikillar fjarlægðar frá notkunarstað og erfiðleika við fjarlægingu timburs úr skógi að etv. verði ekki raunhæfur afgangur til skógarbóndans, hann gæti jafnvel orðið neikvæður.

Við þurfum að hugsa fram í tímann þegar valið er land undir nytjaskóg. Sums staðar hefur verið gróðursett í mjög brattar hlíðar eða illa framræstar mýrar, þar sem ekki er unnt að koma fyrir tækjum við viðarhöggið eða að draga timbrið út úr skóginum. Þar verður vinnukostnaður óhjákvæmilega mjög hár. Borgað er fyrir fellingu, ekki útdrátt á timbri. Skógarbændur þurfa að hagræða markvisst.


Hrönn Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri LSE tók undir með Maríu varðandi samstarf – samstarfsvettvang, spurði hvað sé því til fyrirstöðu að orðið samráð verði gildishlaðnara – betur skilgreint.

Þröstur sagði að ekkert væri því til fyrirstöðu þarna væri spurning um orðalag gegnum alþingi.


Að þessu loknu kvaðst Þröstur verða að víkja af fundi vegna tímaskorts og þakkaði félagsmönnum góðar umræður.
Hrönn tók aftur upp umræðuna um kolefnisbindingu. Eins og er vantar vettvang fyrir sölu á kolefnisbindingu. Landsvirkjun er að kolefnisjafna að hluta til með því að greiða grunnkostnað við að koma upp skógi.

LSE er komið inn í rammasamning Búnaðarsamtakanna um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins – búnaðarlagasamninginn. Ráðherra ráðstafar framlögum ætluðum til átaksverkefna skógarbænda til LSE, mun fá um 14 milljónir á ári. Markmiðið er að auka virði skógarafurða, efla áframvinnslu hráefnis, vöruþróun og vöruframboð og auka þannig arðsemi skógræktar.

Á síðasta Búnaðarþingi kom fram tillaga um að landbúnaðurinn myndi kolefnisjafna sig – vegvísir fyrir landbúnaðinn. Greina þarf upplýsingar um losun og hugmyndir um mótvægisaðgerðir svo sem með skógrækt.

Mikilvægt er að gera viðarmagnsúttekt til að gera sér grein fyrir vægi og verðmæti skógarafurða. Skýrslu um málið má finna á skogarbondi.is

Þau félög sem eru að leggja af stað í viðarmagnsúttekt fá styrk hjá LSE.

Blaðið okkar,“ Við skógareigendur“, er í vinnslu. Í því verður auka-kynning á skógrækt og sent á öll lögbýli.

Aðalfundur LSE verður haldinn í Valaskjálf á Egilsstöðum dagana 7. – 9. október. Hrönn hvatti félaga til að taka helgina frá og taka virkan þátt í málþingi og umræðuhópum.
Að tölu Hrannar lokinni var aðalfundi slitið formlega og gengið til umræðu um Úrvinnslumál, annað aðalmál dagsins.
Skoðunarferð hjá Feng, Hveragerði og umræða um rekstrarfélag
Á undan sjálfum aðalfundinum var starfsemi fyrirtækisins Fengs í Hveragerði kynnt fyrir félagsmönnum, 33 félagar hlýddu á kynningu framkvæmdastjóra, Sigurðar Halldórssonar, en Fengur hefur unnið að endurvinnslu á timbri síðan árið 2010.

Helstu framleiðsluvörur Fengs eru undirburður unninn úr úrgangstimbri, misgrófur eftir því hvort nota á undirburðinn fyrir hross eða kjúklinga; legubásaspónn sem er mun fínni, og loks er sallinn sem verður til við timburtætinguna kögglaður. Undirburður frá Feng er mjög rakadrægur og þykir því góður.

Kögglana má nota á margvíslegan hátt. Fyrir nokkru var unnið að tilraunaverkefni vegna upphitunar húsnæðis í Grímsey. Þar er ekki möguleiki á heitu vatni og athugað var hvort hagkvæmara væri að nota olíu eða timbur sem orkugjafa í fjarvarmaveitu. Niðurstaðan var að kögglað timbur væri fýsilegur kostur, en þar sem olíuverð er óvenjulágt um þessar mundir, verður notast við olíu sem orkugjafa fyrst um sinn.

Timbur, hvort heldur skógviður eða úrgangstimbur, þarf að vera vel þurrt áður en það er tætt niður. Það er þurrkað hjá Feng með því að 140° heitri gufu er blásið undir viðinn, á sólarhring má þannig minnka rakamagnið úr 20 – 30 % í 5% sem er hæfilegur vinnsluraki.

Árið 2010 kostaði tonnið af innfluttum spæni 100 þús.kr. en kostar nú 60 þús. Kögglar eru m. a. fluttir inn frá Svíþjóð þar sem innlend framleiðsla annar ekki markaðnum. Fengur borgar fyrir endurvinnslutimbrið og mun einnig greiða fyrir þann skógarvið sem kemur til vinnslu.

Nýlega er hafin endurvinnsla á heyrúlluplasti. Það er þurrkað, tætt og baggað og selt þannig til Englands. Framleiðsla fyrirtækisins hefur verið sveiflukennd, mest á vetrum, en með endurvinnslu á plasti jafnast sveiflan út og verður jafnvel þörf á sólarhringsvöktum við framleiðslu. Sem stendur eru hjá fyrirtækinu 6 ársverk en gert er ráð fyrir að þau verði 10 þegar plastvinnslan er komin á fullt skrið. Möguleikarnir í endurvinnslu eru miklir en nú er um 95% alls endurvinnsluhráefnis í landinu flutt út.

Aðstaðan í Hveragerði er góð, rúmgóð skemma, 7000 m-2 malbikuð lóð og nægur aðgangur að 140° heitri gufu.

Ýmis tilraunaverkefni hafa verið í gangi svo sem að búa til köggla úr kvartssandi og viði til að bæta brennslu kísilmálms. Eins hafa verið gerðar tilraunir með að köggla hrossatað sem gefur góða raun. Saman við það má blanda grasfræi eða ýmiskonar trjáfræi og dreifa síðan með dreifara á landgræðslusvæði. Fræið þolir um 40° hita í stuttan tíma í framleiðsluferlinu. Eins hefur verið prófað að lita kurl sem nota á við sérstakar aðstæður. Skreið er líka unnt að tæta og köggla síðan. Við það myndi rými á útfluttri skreið minnka verulega og því flutningskostnaður.

Stór kurlari var fluttur inn frá Bandaríkjunum síðastliðið haust á vegum Fengs. Biðlisti er eftir honum. Sem stendur er tætarinn hjá Sorpu, síðan fer hann austur í Rangárvallasýslu og þá upp í Hreppa.
Að loknum aðalfundi hófust umræður um væntanlega stofnun rekstrarfélags sem formaður FsS leiddi.

Hún minnti á að LSE hvetji félögin til stofnunar rekstrarfélaga um úrvinnslu.

Sótt hefur verið um styrk til Uppbyggingarsjóðs Suðurlands. Verið er að vinna að ítarlegri markmiðaáætlun. Til eru upplýsingar um skógarmagn næstu 8 ára.

Um allnokkurt skeið hefur verið til umræðu samstarf á einhverju sviði við fyrirtækið Feng í Hveragerði og jafnvel formlegt félag um t.d. kurlarann. Peningalega er hagkvæmara að við göngum inn í Feng á einhvern hátt en að við stofnum sérstakt félag, þannig losnar félagið við að yfirstíga ýmis byrjunarvandamál sem Fengur hefur tekist á við varðandi þróun framleiðslu og markaðsmál.

Unnt er að panta kurlarann en bið er eftir honum þar sem hann er að vinna hjá Sorpu, en fer síðan i Rangárvallasýslu og upp í Hreppa. Vegna stærðar eru ákveðnir erfiðleikar við að koma kurlaranum milli staða og því best að taka niður pantanir og raða síðan niður þannig að milliferðir verði sem hagkvæmastar. Líklega verður keyptur annar kurlari innan tveggja ára.

Spurt var um fjárhagslega stöðu Fengs, sem nauðsynlegt væri að þekkja áður en ákvörðun um hlutabréfakaup yrði tekin og skiptar skoðanir voru um hvort FsS ætti að stofna eigið fyrirtæki eða ganga inn í annað.

Niðurstaðan var að vinna greinargerð þar sem kostum og göllum væri stillt upp og að halda félagsfund um málið innan tíðar.
Agnes Geirdal minnti á verkefnið COST – sem snýst um nytjar úr skógum aðrar en timbur. Lilja Magnúsdóttir hjá Matís hefur tekið þátt í verkefninu ásamt Agnesi fyrir Íslands hönd.

Á næstunni verður ráðstefna í Englandi sem nefnist Stjörnutré – þetta er einnig kaupstefna, þar sem kynntar verða ýmsar afurðir skógarins, svo sem sveppir, ber, efni til litunar o.m.fl.


Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið um kl. 17:30.
Fundarritari Sigríður Hjartar
Yüklə 26,08 Kb.

Dostları ilə paylaş:




Verilənlər bazası müəlliflik hüququ ilə müdafiə olunur ©azkurs.org 2024
rəhbərliyinə müraciət

gir | qeydiyyatdan keç
    Ana səhifə


yükləyin