Klínískar leiðbeiningar um neyðargetnaðarvarnirYüklə 19,75 Kb.
tarix03.02.2017
ölçüsü19,75 Kb.
#7417
Klínískar leiðbeiningar um neyðargetnaðarvarnir

Tilgangur með gerð klínískra leiðbeininga um neyðargetnaðarvarnir er:


Að auka þekkingu almennings og heilbrigðisstarfsfólks á neyðargetnaðarvörnum og bæta heilbrigðisþjónustuna.

Markmið með neyðargetnaðarvörn eru:    • Að auðvelda konum/pörum að stjórna kynlífi og barneignum.

    • Að fækka óráðgerðum getnaði og þar með fóstureyðingum og ótímabærum barneignum.

Skilgreiningar
Neyðargetnaðarvörn er getnaðarvörn, sem kemur í veg fyrir getnað og þungun eftir óvarðar samfarir. Neyðargetnaðarvörn er ekki fóstureyðing. Hún hefur áhrif áður en egglos eða bólfesta á sér stað.

Óvarðar samfarir eru samfarir, þar sem getnaðarvarnir eru ekki notaðar eða þær taldar hafa brugðist.Inngangur
Neyðargetnaðarvörn er nauðsynlegur valkostur til að koma í veg fyrir óráðgerðan getnað. Neyðargetnaðarvörn er ætluð öllum konum á frjósemisaldri. Hún er sérstaklega mikilvæg fyrir unglingsstúlkur sem eru oft ekki byrjaðar að nota öruggar getnaðarvarnir.
Á Íslandi er tíðni fæðinga og fóstureyðinga meðal ungra stúlkna há samanborið við nágrannalönd.
Í innlendum og erlendum athugunum hefur komið í ljós að neyðargetnaðarvarnir eru tíðum ekki notaðar eins oft og þyrfti m.a. vegna þekkingarskorts heilbrigðisstarfsfólks og almennings.

Tegundir neyðargetnaðarvarna

  • Hormónatöflur

  • Lykkja

Ósamsettar töflur með gestageni:
Innihald: 750 míkrog. Levonórgestrel.
Ábending: Getnaðarvörn eftir óvarðar samfarir, innan 72 klukkustunda. Að jafnaði skal gefa neyðargetnaðarvörn innan 72 klukkustunda frá óvörðum samförum en að hámarki innan 120 klukkustunda þegar þannig stendur á. Því fyrr því áhrifaríkara.
Frábending: Þungun.
Varúð: Er ekki ráðlögð fyrir konur með bráða porfýríu og lifrarsjúkdóm á háu stigi.
Skammtur: 1 tafla í senn með 12 klukkustunda millibili eða 2 töflur (1500 míkrog.) í einum skammti.
Virkni: Í 1-2 % tilvika tekst ekki að koma í veg fyrir getnað. Árangur er betri því fyrr sem lyfið er tekið eftir óvarðar samfarir.
Aukaverkanir: Ógleði kemur fyrir hjá allt að 20% kvenna og uppköst hjá allt að 5%. Brjóstaspenna, höfuðverkur, og kviðverkir koma sjaldnar fyrir.

Samsettar töflur með estrógeni og gestageni:
Innihald: 50 míkrog.Ethinýlestradíól og 250 míkrog. Levónorgestrel.
Ábending: Getnaðarvörn eftir óvarðar samfarir innan 72 klukkustunda. Að jafnaði skal gefa neyðargetnaðarvörn innan 72 klukkustunda frá óvörðum samförum en að hámarki innan 120 klukkustunda þegar þannig stendur á. Því fyrr því áhrifaríkara.
Frábending: Þungun.
Varúð: Kanna nánar hvort konan hefur áður fengið djúpbláæðarsega eða staðbundið migren með áru.
Skammtur: 2 töflur í senn með 12 tíma millibili.
Virkni: Í 2-3% tilvika tekst ekki að koma í veg fyrir getnað. Lyfið er árangursríkara því fyrr sem það er tekið.
Aukaverkanir: Allt að 50% kvenna fá ógleði og um 20 % kasta upp. Slappleiki, brjóstaspenna, höfuðverkur og kviðverkir koma sjaldnar fyrir. Fyrir bæði lyfin gildir: Verkun er ekki fullþekkt og mismunandi eftir því hvar konan er stödd í tíðahring við töku lyfsins. Lyfin hafa áhrif á egglos, á slímhúð legs og gulbú. Lyfin verka betur því fyrr sem þau eru tekin eftir óvarðar samfarir.

Ráðgjöf, fræðsla og eftirlit

Viðkomandi einstaklingur/par á rétt á hlutlausri, haldgóðri ráðgjöf og fræðslu í einrúmi.

Leggja ber áherslu á, að því fyrr sem neyðargetnaðarvarnartöflur eru teknar eftir óvarðar samfarir, því betri er árangur. Endurtaka má skammt eða benda á lykkju ef uppköst verða innan 1 klukkustundar frá töflutöku. Fræða þarf um verkun og aukaverkanir, öruggar getnaðarvarnir og hættu á kynsjúkdómasmiti. Ráðleggja þarf um notkun getnaðarvarna fram að næstu blæðingum og kynna hvernig bregðast skuli við ef meðferðin ber ekki árangur Ef blæðingar koma ekki á væntanlegum tíma er ráðlagt að gera þungunarpróf.

Ekki hefur verið sýnt fram á fósturskemmdir eftir töku neyðargetnaðarvarnartaflna né aukna hættu á fósturláti. Óhætt er að halda meðgöngu áfram ef konan óskar þess.
Endurkoma getur verið skynsamleg til eftirlits og fræðslu.

Koparlykkja
Ábending: Óvarðar samfarir ef ekki eru liðnir meir en 5 sólarhringar frá óvörðum samförum eða innan við 5 sólarhringar frá egglosi.

Frábending: Sömu frábendingar og almennt fyrir lykkjuuppsetningu þ.e.a.s. þungun, sýking, missmíð á leghálsi eða legi sem hindrar uppsetningu. Fyrri saga um sýkingar, aðgerðir eða utanlegsfóstur getur verið frábending eða ástæða til varkárni.

Meðferð: Fengin og sett upp af lækni.
Verkun: Kemur í veg fyrir frjóvgun og að frjóvgað egg festist í leginu.
Virkni: Í 1% tilvika tekst ekki að koma í veg fyrir getnað
Aukaverkanir: Óþægindi við uppsetningu. Sýkingarhætta. Kemur ekki í veg fyrir utanlegsþungun. Að öðru leyti eru ekki aukaverkanir ef lykkjan er fjarlægð við næstu blæðingar.
Eftirlit/ráðgjöf: Fræða þarf konuna/parið um aðrar getnaðarvarnir og hættu á kynsjúkdómasmiti. Gefa á upplýsingar um hugsanlegar aukaverkanir og viðeigandi ráðstafanir ef meðferðin bregst. Gera þungunarpróf ef blæðingar dragast. Taka lykkjuna við næstu blæðingar, ef hún er ekki höfð áfram sem getnaðarvörn og jafnframt ef þungun verður og konan ákveður að halda meðgöngu áfram.

Ýmis atriði varðandi neyðargetnaðarvörn

Val á neyðargetnaðarvörn
Um þrjá möguleika er að ræða. Ósamsettar töflur, ( levonorgestrel töflur) eru fyrsta val, einkum vegna þess að þær hafa færri aukaverkanir en samsettar töflur. Samsettar töflur má nota í þeim tilvikum þar sem þær eru aðgengilegri. Almennt ráðlagðan skammt neyðargetnaðarvarnataflna er æskilegt að auka ef konan er á lyfjum sem hafa áhrif á virkni lyfsins svo sem flogaveikislyf og sum sýklalyf.

Lykkja er einkum notuð ef komið er fram yfir 3 sólarhringa frá óvörðum samförum eða ef viðkomandi óskar eftir lykkju sem áframhaldandi getnaðarvörn. Hormónalykkjan (Levo-Nova) hefur ekki verið rannsökuð m.t.t. notkunar sem neyðargetnaðarvörnAðgengi
Neyðargetnaðarvarnartöflur fást gegn lyfseðli hjá öllum læknum. Á heilsugæslustöðvum og læknavöktum á að vera hægt að fá lyfseðil fyrir neyðargetnaðarvörn samdægurs Hafa má samband við vakthafandi lækni á kvennadeildum til að fá neyðargetnaðarvörn. Barnalæknar, heimilislæknar og aðrir sem sinna unglingum ættu að hugleiða að hafa neyðargetnaðarvarnartöflur tiltækar á læknastofum sínum.

Mælt er með því að hjúkrunarfræðingar í skólum og lyfjafræðingar í lyfjabúðum geti gefið neyðargetnaðarvörn í samvinnu við lækni. Lyfjafræðingar í lyfjabúðum hafa heimild til afhendingar neyðargetnaðarvarnartaflna án lyfseðils skv. Ákvæðum 11.gr lyfjalaga nr. 93/1994

Lykkjur er hægt að fá á heilsugæslustöðvum, kvennadeildum og hjá kvensjúkdómalæknum.
Allir sem leita til heilbrigðisstarfsmanna eftir nauðgun eiga kost á neyðargetnaðarvörn.

Gæði þjónustunnar
Neyðargetnaðarvörn er sjálfsagt að veita öllum konum sem þess óska.
Fræða þarf um neyðargetnaðarvörn alls staðar þar sem kynfræðsla og fræðsla um getnaðarvarnir fer fram.

Leggja skal áherslu á mikilvægi ráðgjafar í einrúmi fyrir viðkomandi konu/par en gefa greinagóðar skriflegar upplýsingar ef ekki er unnt að veita fræðslu og ráðgjöf með viðtali.

Skjólstæðingar heilbrigðisstarfsfólks eiga rétt á bestu fáanlegu þjónustu og meðferð hverju sinni, óháð aldri og erindi og virða skal sjálfsákvörðunarrétt og trúnað við skjólstæðinginn. Trúnaður er sérstaklega mikilvægur í samskiptum við unglinga þegar þeir eru að læra að taka meiri ábyrgð á eigin lífi. Heilbrigðisstarfsmaður metur hvenær þörf er á samráði við forráðmenn og tekur mið af þroska viðkomandi, eðli erindis, rétti og ábyrgð skjólstæðings. Allt samráð og samvinna við aðra en skjólstæðinginn er rétt að gera með vitund hans og samþykki. Heilbrigðisstarfsmenn eiga að hvetja öll ungmenni sem fá getnaðarvarnir til að ræða við forráðamenn sína. Almennar viðteknar reglur um gjöf getnaðarvarna gilda jafnframt fyrir neyðargetnaðarvörn.

Eftirlit
Eftirlit eftir notkun neyðargetnaðarvarnar felst í því að konan fylgist sjálf með blæðingum og tekur þungunarpróf ef blæðingar koma ekki eða eru óeðlilegar.

Endurkoma getur verið skynsamleg til frekari fræðslu, eftirlits og ráðgjafar.

Unnið af vinnuhópi á vegum Landlæknisembættisins.

Starfshópinn skipa:


Anna Björg Aradóttir, Hjördís Harðardóttir, Ósk Ingvarsdóttir,
Rannveig Einarsdóttir, Reynir Tómas Geirsson, Sigurður Helgason,
Sóley Bender og Steingerður Sigurbjörnsdóttir.

Yüklə 19,75 Kb.

Dostları ilə paylaş:
Verilənlər bazası müəlliflik hüququ ilə müdafiə olunur ©azkurs.org 2022
rəhbərliyinə müraciət

    Ana səhifə